.comment-link {margin-left:.6em;}

Carpachio og Bateman

Mind - Breath - Body

Saturday, March 17, 2007

The end of an era

Jæja þá er víst komið að því. Leiðir eru að skilja hjá okkur Geira. Hann heldur nú ótrauður heim til Móðurlandsins þar sem hann hyggst innleiða nýja siði í byggingariðnaðinum....

Það má með sanni segja að það verði viðbrigði að missa Geira héðan úr Seattle. Nú erum við búnir að ganga saman í gegnum súrt og sætt í meira en eitt og hálft ár. Við erum búnir að búa saman, vera saman í bekk og gera nánast alla hluti saman.
Það hefur líka verið ótrúlegt að fylgjast með drengnum hreinlega springa út. Aldrei hefði mig órað fyrir því að þessi óharðnaði unglingur sem lagði af stað með mér til Seattle fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan ætti eftir að þroskast svona mikið. Auðvitað hefur hann hlotið frábæra leiðsögn frá mér, en það verður samt ekki horft fram hjá því að þessar ótrúlegu framfarir eru einnig að einhverju leiti honum sjálfum að þakka. Auðvitað hefur hann misstigið sig á leiðinni, eins og þegar hann lék í Dressman auglýsingunni:

En þegar slíkt gerist þá skiptir máli að dæma ekki heldur benda vingjarnlega á mistökin og ræða síðan á jafnréttisgrundvelli hvers vegna þetta var rangt.
Eða þegar hann festi næstum hausinn í rörinu...

En síðan fór þetta nú allt að ganga betur og maður hætti að hafa áhyggjur og sá að strákurinn var alveg að spjara sig upp á eigin spýtur.
Dagurinn þegar hann fór síðan á fyrsta stefnumótið, með stelpu sem hann kynntist á Internetinu, verður dagur sem ég mun seint gleyma, eftirvæntingin og stoltið sem hreinlega skein af stráknum var engu líkt.

Þetta gekk allt saman vel og hafa stefnumótin verið fjölmörg eftir þetta.

Það má jafnvel ganga svo langt að segja að Geiri sé orðinn einn eftirsóttasti piparsveinninn hér austan I-5 hraðbrautarinnar. Hann skilur eftir sig kramin stúlknahjörtu hvar sem hann fer og það hefur verið hreinlega með ólíkindum að fylgjast með örvæntingu og depurð aðdáendahópsins núna eftir að hann tilkynnti brottför frá Seattle. Annað eins hefur ekki sést síðan drengjakvartetinn BoyZone tilkynnti að hann væri að hætta.
Það hefur því ekki reynst auðvelt að fá tíma hjá Geira þessa síðustu daga, slíkan munað þarf að bóka með a.m.k. nokkurra daga fyrirvara.
Það er því ljóst að það verður stórt skarð hér í Seattle þegar Geiri fer og af honum mikill missir.
Það er samt alltaf gott að vita að þegar maður horfir upp í himininn og sér stjörnurnar þá eru það sömu stjörnur og skína á Geira í Glaðheimunum.